Góður vinur okkar í Meitlinum kallar Meitilinn heitasta hornið og er ég afar ánægð með þá nafngift. Hann, Simmi minn, á þið til að setjast út, hvenær sem færi gefst frá eldamennsku og öðrum störfum sem tilheyra reksrti veitingastaðar, til að ná sér í ferskt loft og smá hvíld. Hann situr aldrei lengi einn úti. Einhver er kominn í hinn stólinn áður en við er litið og oftar en ekki er náð í fleiri stóla. Allir sem ganga fram hjá heilsa eða stoppa aðeins og spjalla og margir sem keyra fram hjá vinka eða flauta. Mér finnst þetta gefa mannlífinu í Þorlákshöfn gildi. Það er alltaf svo gaman að hitta einhvern þegar maður fer út í búð eða bara út að labba. Eitt sinn var sagt frá því í blaðagrein um Þorlákshöfn að það hefði ekki einu sinni verið köttur á ferli þegar blaðamenn fóru um staðinn. Þeir ættu bara að koma núna og setjast á heitasta hornið og spjalla við vertinn í Meitlinum. Hann hefur alla vega skoðanir á hlutunum og finnst gaman að ræða við menn um málefni líðandi stundar.