Ég var sjálf gestur í Meitlinum í kvöld. Söngfélagar mínir ákváðu að fá sér að borða saman eftir velheppnaðan æfingadag og einhverra hluta vegna varð veitingastaðurinn minn fyrir valinu. Ég fór í uppáhaldskjólinn minn og háhælaða skó og settist við borð með skemmtilega fólkinu sem ég syng með einu sinni í viku. Auðvitað var ég dálítið stressuð. Hvernig skyldi starfsfólkið mitt standa sig? Hvernig skyldi maturinn hjá Simma mínum bragðast? Ætli verði nóg handa öllum? Og alls konar svona hugdettur hringsólast í kollinum á meðan á máltíðinni stendur. Ég stend í þeirri trú að allir hafi verið sáttir og þangað til annað kemur í ljós fer ég sæl að sofa. Ég skemmti mér konunglega sem gestur í Meitlinum.