Höfum verið eigendur að litla huggulega veitingastaðnum okkar, núna í þrjá og hálfan mánuð og erum enn að átta okkur á hlutunum . Enginn dagur er eins. Allir dagar koma okkur að óvörum. Höfum samt sloppið ótrúlega vel fyrir horn með ýmsa hluti, eins og birgðastöðu, þrátt fyrir mikið stress um að valda viðskiptavinum okkar ekki vonbrigðum. Það er ekki gaman að segja: „Því miður kjúklingabitarnir kláruðust í gær.“ Eða trúa viðskiptavinum fyrir þvi að einhver pöntun hafi misfarist. Hvað þá að viðurkenna að bjórkúturinn sé tómur. Nei, við viljum hafa alla hluti í lagi Í fersku minni er dagur tvö í kompaníinu, þ.e. 2. desember sl., þegar við höfðum verið með pítsahlaðborð (án þess að gera okkur grein fyrir hvaða vinnu það þýddi) og osturinn kláraðist þegar síðasta pítsan á hlaðborðið fór fram. Allir voru sáttir, glaðir og sælir og klukkan alveg að verða níu (sem þýðir að búllunni sé lokað) en þá hringir síminn og enn ein pöntun berst upp á þrjár pítsur. Stresshormónið fór í hæstu hæðir, því enginn ostur var til í húsinu en áður en vertinn gat stunið því upp sagði sá sem pantaði: „Og það má alls ekki vera ostur á pítsunum.“
Þetta gerir lífið bara skemmtilegt.
Sniðugt að halda úti bloggsíðu um veitingastaðinn. Til hamingju með síðuna, kæru hjón og gangi ykkur vel!
Takk, Sigga mín.
Gott ad koma í Meitilinn. Gódar pizzur og gott vidmót. Kv. Baldur